Íslenska geitin er óslípaður demantur hvað nýtingu varðar

Birt í Bændablaðinu/smh 28.04.2015

„Við höfðum átt hross í áratugi og það var eina reynsla okkar af búskap áður en við fluttum hingað á Snæfellsnes árið 2009,“ segir Sif Matthíasdóttir, formaður Geitfjárræktarfélags Íslands. Hún tók við formennsku í félaginu fyrir ári, hún gerðist sjálf geitfjárbóndi 2010.
Sif og maður hennar, Jörundur Svavarsson, prófessor í sjávarlíffræði við Háskóla Íslands, keyptu jörðina Hrísakot árið 2005 sem er skammt frá Stykkishólmi, undir Ljósufjöllum, með það að markmiði að hafa það náðugt í sveitarómantíkinni með hesta sína í viðhaldslitlu húsnæði þegar þau létu af störfum. Sif er tannlæknir og sækir enn vinnu í Kópavoginn þar sem hún rekur eigin tannlæknastofu, en hún segir að starfshlutfall þar sé komið niður í 50–60 prósent. „Við fengum svo gripahús með aðliggjandi jörð sem við keyptum stuttu síðar. Hún hét til forna Hrísar en heitir nú Vellir – og okkur fannst að við þyrftum að gera eitthvað nýtilegt við þessi gripahús. Á þessum árum, frá því að við keyptum og þar til við fluttum í íbúðarhúsið, fór tíminn í að byggja upp húsakost. Við reistum hesthús sem við ákváðum svo í miðri framkvæmd að skyldi hýsa geitur til helminga.“
Smitaðist af eldmóði Jóhönnu á Háafelli
Um ástæður þess að Sif fékk áhuga á geitfjárrækt segir hún að líklega hafi Jóhanna Þorvaldsdóttir á Háafelli opnað augu hennar fyrir því að geitfjárrækt væri eitthvað fyrir hana. „Það var í raun ekki fyrr en ég fór að fylgjast með hennar starfi sem mér varð ljóst að það var til í landinu þessi merki geitastofn.
Þegar ég svo gerði mér ljóst að umsvifin í hestamennskunni myndu varla aukast þá datt mér í hug að það gæti verið áhugavert að eignast nokkrar geitur og byggja upp smá búskap í kringum þær – og það hefur átt fullkomlega vel við mig. Þetta er hreint hólf – og engar geitur í þessu hólfi – þannig að við þurftum að leita eftir gripum í öðru hreinu hólfi, nefnilega í Þistilfirði frá Fjallalækjaseli. Þaðan höfum við einungis fengið gripi. Höfum sótt okkur frá þremur og upp í fimm hausa í fjórgang frá árinu 2010 og keyrt með hingað. Það eru strangar reglur um flutning gripa á milli hólfa og það þarf að taka tillit til sauðfjárhólfa því ákveðnir sjúkdómar geta smitast á milli þessara tegunda. Því gilda varnarlínur fyrir sauðfé einnig fyrir geitur. Hingað til höfum við geitfjárræktendur sloppið nokkuð vel við sjúkdómasmit frá sauðfénu.
Annars höfum við líka verið að prófa okkur áfram með sæðingar þó árangurinn hafi kannski ekki verið sérstakur, enda höfum við verið með fryst sæði og samstillt geiturnar með hormónasprautum sem mér skilst að sé ekki ákjósanlegast. Við höfum verið að fá eitt og eitt kið úr þessum sæðingum. Nú í ár prófuðum við í fyrsta skipti að nota ferskt sæði og við gerum okkur vonir um að árangurinn verði betri. Þorsteinn Ólafsson dýralæknir var tilbúinn að ganga í það að safna sæði frá Háafelli og ég fór á námskeið til að læra sæðingar svo þetta stendur nú allt til bóta vonandi hvað sæðingarnar varðar.“
Stefna á að mjólka geitur í sumar
„Við ákváðum að kaupa sauðfjárkvóta þegar það bauðst hér í sveitinni fyrst og fremst til að öðlast reynslu af búskap. Við erum með um 30 geitur og um 80 vetrarfóðraðar ær, 20 hesta og íslenskan hund. Meiningin er svo að fækka sauðfénu eftir því sem geitum fjölgar,“ segir Sif um sinn blandaða búskap. „Sauðfjárafurðirnar frá Hrísakoti fara hefðbundna leið í sláturhús og svo er eitthvað heim tekið líka. Afurðirnar frá geitfénu hafa ennþá verið það litlar að þær hafa einungis farið til heimabrúks. Við gerum okkur vonir um að frá og með næsta sumri getum við farið að mjólka geiturnar og þá munum við örugglega prófa okkur áfram með úrvinnslu á henni.“
Þakklát fyrir stuðning ráðherra
Sif er ánægð með framlag Sigurðar Inga Jóhannssonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, í stuðningi við greinina að undanförnu. „Það hefur verið aukið við fjármagn til Erfðafjárnefndarinnar sem stundar rannsóknir á erfðaefni geitarinnar og hluti af þeim fjármunum fer til geitfjárbænda sem stofnfjárstyrkur. Áður var greitt með fyrstu 25 hausunum, nú er greiddur styrkur með öllum skýrslufærðum geitum, fyrir það erum við mjög þakklát. Okkur þótti líka vænt um hvatningu hans til þess að Geitfjárræktarfélagið yrði aðili að búvörusamningunum, sem er í raun í takti við hugmyndir hans um breytingar á búvörulögum og gera ráð fyrir að okkar félag muni njóta stuðnings til jafns við aðrar greinar. Nýverið fögnuðum við því einmitt að vera orðinn aðili að Bændasamtökum Íslands – og það skiptir líka máli fyrir frekari framþróun greinarinnar.“
Greinin stendur frammi fyrir áskorunum
Sif segir að geitfjárræktin standi frammi fyrir ýmsum áskorunum. „Það er ljóst að við erum með lítinn stofn sem er mjög skyldleikaræktaður. Stofninn samanstendur í raun mest af nokkrum litlum hjörðum og svo er það Jóhanna á Háafelli sem er með langflesta gripi, eða um 150 vetrarfóðraðar skepnur. Það er í raun ekkert enn útséð með að það takist að bjarga þessum stofni, en ef það á að takast verða á næstu tíu til tuttugu árum að verða hér á landi þrjú til fimm bú með tvö til fjögur hundruð gripi. Í dag eru um þúsund einstaklingar til á geitfjárbúum landsins og það hefur verið talað um að til þess að hægt verði að taka stofninn af válista þurfi um fimm þúsund kvenkyns einstaklinga – svo það er enn langt í land með það.
Um síðustu áramót hætti Ólafur Dýrmundsson, sem ráðunautur fyrir greinina og við hans starfi tók Eyþór Einarsson, en hann er einnig ábyrgðarmaður í sauðfjárrækt hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins. Sif segir að Ólafur hafi skilað mjög góðu starfi sínu í hendur Eyþórs og ekki sé ástæða til annars en bjartsýni á þessum tímapunkti. „Það er mjög mikilvægt að við séum nú komin inn í Bændasamtök Íslands því við þurfum virkilega á því að halda að geitfjárrækt verði að viðurkenndri starfsgrein, svo einhver framþróun geti orðið. Ég er þakklát fyrir góðar viðtökur af hálfu forsvarsmanna Bændasamtakanna og vonast eftir farsælu samstarfi þar innanborðs. Þar hefur lengi verið unnið gott starf í þágu bænda sem mun koma okkur til góða. Til dæmis vonast ég til þess að með þessu skrefi verði hægt að koma skýrsluhaldi í geitfjárrækt í nútímalegt horf – en hingað til hefur allt slíkt starf verið unnið með blaði og penna og orðið tímabært að þetta verði gert á stafrænan hátt. Vinna við forritun var komin af stað og vonandi verður hægt að klára það fyrr en seinna.“
Gríðarlega miklir möguleikar fyrir geitfjárafurðir
Sif leggur áherslu á að það þurfi að eiga sér stað ákveðin viðhorfsbreyting til geitfjárræktar í landinu; bæði innan greinarinnar og reyndar almennt í þjóðfélaginu. „Við erum í raun með óslípaðan demant í höndunum. Íslenska geitin er orðin viðurkennd sem séríslensk tegund sem hefur verið í einangrun hér síðan um landnám, þótt örlítið hafi verið flutt út af lifandi geitfé, bæði til Skotlands og Bandaríkjanna.
Afurðirnar eru engu líkar og eiga mikla möguleika í framtíðinni; kjötið af geitinni er afburða gott en magurt, geitamjólkin víðfræg og ullin einstök,“ segir Sif og bætir við að svo sé hún skráð í Bragðörk alþjóðlegu Slow Food-hreyfingarinnar sem gefur henni enn meiri möguleika. Hún kannast ekki beint við að það séu fordómar gagnvart kjötinu af geitinni en segir það mjög vandmeðfarið. „Það er auðvitað mjög ólíkt lambakjötinu og til að mynda mjög fiturýrt. Ég sé það líka fyrir mér sem framtíðarverkefni félagsins – þegar framboð af kjöti verður orðið nægt til að það geti verið alvöru markaðsvara – að við fáum til liðs við okkur matreiðslumeistara til að kynna almenningi fyrir kostum geitakjötsins. Fyrst um sinn verður slíkt kjöt þó örugglega einungis til í litlum sérverslunum. Varðandi ullina og vinnslu á henni stöndum við frammi fyrir því að við eigum ekki almennilegan tækjabúnað til að hreinsa geitaull. Við þurfum því að senda ullina til Noregs eða Skotlands ef við viljum fá hana hreinsaða og unna. Það er hins vegar mikið óhagræði í því; bæði tímafrekt og kostnaðarsamt. Fiðan í ull geitarinnar er óviðjafnanlega mjúk og fín og þekkist undir heitinu kasmírull. Hana er ekki hægt að vinna nema strýið sé skilið frá með þar til gerðum tækjabúnaði. Um möguleika geitamjólkurinnar þarf svo varla að fjölyrða.“
Sif er mjög bjartsýn á framtíð geitfjárræktar á Íslandi. „Fyrst og fremst þarf þó að breyta viðhorfi bændanna og fá þá sem eiga og halda geitfé til þess að sjá það sem stofn sem hægt er að nýta á arðbæran hátt – sem auðlind en ekki bara sem tómstundastarf. Ef það tekst, með fræðslustarfi og fjárhagslegum stuðningi, þá ætti geitfjárræktinni að vera allir vegir færir.“
2020-10-20T15:35:21+00:00

Share This Story, Choose Your Platform!

About the Author:

Go to Top