Veitingastaðurinn Hrísafell er á sveitabænum Hrísakoti, sem staðsettur er í Helgafellssveit á norðanverðu Snæfellsnesi, í miðju sögusviði Eyrbyggju. Eyrbyggja er ein af bestu Íslendingasögunum. Hún fjallar um líf fólks á norðanverðu Snæfellsnesi, einkum við Álftafjörð og á Þórsnesi, þegar tímarnir eru að breytast og kristnihald tekur við af fornum siðum með nýjum háttum og venjum. Mikið er um átök, bæði líkamleg og samfélagsleg. Átök á milli Arnkels Goða, sem bjó á Bólstað, innst í Álftafirði, og Snorra Goða á Helgafelli, eru mikilvæg uppistaða í sögunni. Sagan er frábær spennusaga, þar sem mikið er um plott af ýmsu tagi, dráp vel eða illa útfærð, auk þess sem draugagangur kemur mikið við sögu. Faðir Arnkels, Þórólfur bægifótur, bjó í Hvammi, sem staðsettur er undir vesturhlíðum Úlfarsfells. Hann var illa innrættur og ofsótti íbúa í Þórsdal löngu eftir dauða sinn.
Bændur í Hrísakoti eru hjónin Sif Matthíasdóttir og Jörundur Svavarsson. Þau stunda geita- og hrossarækt, auk þess sem veitingaaðstaða og vottuð kjötvinnsla er á staðnum og rekin undir nafninu Hrísafell.
Í Hrísakoti er lögð áhersla á að framleiða margvíslegar geitaafurðir eins og kjöt, stúkur, sápur og fiðu.
- Kiðlingakjötið er selt sem heil eða úrbeinuð læri, sem lærissneiðar sem gott er að setja beint á grillið og hryggi í heilu eða sem kótilettur,
- Geitakjötið er einnig unnið á margvíslegan hátt, t.d. grafið og reykt, eða unnið í kjötbollur, pylsur og pottrétti. Á búinu er einnig framleiddar kæfur, geitalifrarkæfa sem og geitakæfa.
- Fiðu (kasmírull) er safnað af geitunum og unnið band úr henni. Einnig eru seldar stökur af geitunum.