Íslenska geitin er enn í útrýmingarhættu. Aðeins eru tæplega 1500 vetrarfóðraðar geitur á Íslandi, í rúmlega 100 hjörðum. Markmið okkar er að hjálpa til við að vernda tegundina og halda henni á lífi á Íslandi. Slíkt krefst þess að geitin sé nýtt á margvíslegan hátt.
Geiturnar komu með landnámsmönnum til landsins þegar Ísland byggðist fyrir um 1100 árum síðan, eitthvað nærri árinu 870 eftir Krist. Takmarkaðar upplýsingar eru um fjölda geita á Íslandi fyrr á öldum. Þegar greint var frá bústofni fyrr á öldum var yfirleitt ekki gerður greinamunur á sauðfé og geitfé. Geitur hafa þó eflaust verið mikilvægar á Íslandi áður fyrr. Fjöldi tilvitnana er um geitur í íslenskum fornbókmenntum. Í Eiríks sögu rauða er þannig nefnt að spákonu nokkurri hafi verið gerður „grautur af kiðjamjólk og matbúin hjörtu úr öllum kvikindum, þeim sem þar voru til“. Bersýnilega var þarna um veisluborð að ræða.
Geitur voru orðnar sjaldgæfar á Íslandi um miðja nítjándu öld. Í flestum sýslum landsins voru þær ýmist sjaldgæfar eða horfnar. Eingöngu í Þingeyjarsýslu var eitthvað marktækt eftir. Árið 1865 voru aðeins eftir 263 geitur í Þingeyjarsýslu, og var þessi fjöldi um 82% af heildarfjölda geita á Íslandi.